Aldrei jafnmargar viðurkenningar til eins klúbbs

Aldrei jafnmargar viðurkenningar til eins klúbbs


Félagar í Kiwanisklúbbnum Drangey komu heim drekkhlaðnir verðlaunum frá umdæmisþingi Kiwanishreyfingarinnar Ísland/Færeyjar sem haldið var í Vestmannaeyjum helgina 11.-13. september. Hið umfangsmikla verkefni sem klúbburinn stóð fyrir sl. ár, er félagar söfnuðu fyrir nýju speglunartæki á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki auk þess að bjóða upp á ristilskimun fyrir einstaklinga 55 ára ár hvert, hefur vakið verðskuldaða athygli.

Venju samkvæmt veitir hreyfingin fjórar aðal viðurkenningar á umdæmisþinginu og fóru þrjár þeirra til Drangeyjar, en aldrei hefur einn klúbbur hlotið svo margar viðurkenningar í eitt og sama skiptið. Drangey hlaut bikar fyrir athyglisverðustu fjáröflunina, K-lykilinn svokallaðan fyrir athyglisverðasta styrktarverkefnið og fjölmiðlabikarinn fyrir að koma þessum góðu verkefnum á framfæri við almenning. Þá var klúbburinn einnig útnefndur fyrirmyndarklúbbur.

Það var stoltur og glaður hópur Kiwanismanna sem tók á móti blaðamanni Feykis þegar hann kom til að bera verðlaunagripina augum. Þeir vildu koma áleiðis kærum þökkum til allra þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem lögðu þessu einstaka samfélagsverkefni lið, og sögðu að viðurkenningarnar vera jafnmikið þeirra og þær eru Kiwanismanna.


www.feykir.is  greindi frá