Kynning frá ferðanefnd !

Kynning frá ferðanefnd !


Umdæmisstjórn tók ákvörðun að stofna til ferðanefndar til að skipuleggja ferð á Evrópuþingið í Austurríki í sumarbyrjun 2016. Voru gömlu reynsluboltarnir Diðrik Haraldsson og Björn Baldursson fengnir til að skipa nefndina og núna strax er komin ferðatilhögun frá þeim félögum
og má sá afraksturinn hér að neðan.

Ferð á Evrópuþing Kiwanis
Villach í Austurríki 25. maí til 6. júní 2016

Ferðanefnd Kiwanis 2016 leggur hér fram ferðatilhögun á ferð á Evrópuþing Kiwanis sem haldið er í borginni Villach í Austurríki 2016. Í framhald af þinginu verður ferðast um Austurríki. Landið er meðal vinsælustu ferðamannalanda Evrópu allt árið.  Það er fagurt og fjölbreytt afþreying og saga Evrópu og landsins sjálfs er á hverri þúfu.  Skíðafólk flykkist til landsins á veturna til að njóta bestu skíðasvæða heims í Ölpunum og  náttúruunnendur, göngufólk og sögufíklar eru helst á ferðinni á sumrin.

Innifalið í ferðinni eru allar ferðir sem við getum notað rútuna til að keyra okkur. Flug, hótel með morgunverði. Aðgangseyrir að söfnum, bátum, lestum, lyftum, skemmtistöðum, görðum og þess háttar er ekki innifalið nema annað sé tiltekið.


Miðvikudagur 25. Maí
Áætlaðir staðir: Flug frá Íslandi, akstur til Vallach.
Ferðatími: 4. Klst. flug. 4 klst. akstur.
Brottför. Mæting í Keflavík um kl. 05.
Flogið með Icelandair með flugi FI-532 kl. 07:20 og lent í Munchen í Þýskalandi kl. 13:05. Þar býður okkar rúta sem flytur okkur til beint til Villach í Austurríki. Hótelið okkar er Hótel City Villach og er í miðbænum aðeins 5 mínútna göngu frá þingstaðnum. Við tékkum okkur inn og kvöldið er frjálst. Þar sem þetta verður löng ferð gerum við ráð fyrir að flestir fái sér eitthvað að borða og taki svo á sig náðir.


Fimmtudagur 26. maí
Áætlaðir staðir: Skoðunarferð til Bled í Slóveníu
Ferðatími: 8 klst.
Brottför: 9:00
Þar sem umdæmisstjóri þarf að sinna skildum sínum verður hann eftir í borginni. Það verður mikið að gera hjá Gunnsteini þennan dag. Kl.
9:00 verður einhverskonar kynnisferð til hádegis.
Kl. 13:30 KIEF stjórnarfundur á Holiday Inn.
Kl. 17:00 Blaðamannafundur.
Kl. 18:00 Boð hjá borgarstjóra Villach í City Hall.
Kl. 19 Kvöldverður Evrópustjórnar. Þá þyrftum við að vera komin til baka svo Sigríður geti verið með manni sínum þar.
Við hin leggjum af stað kl. 9:00 og höldum að vatninu Bled í Slóveníu. Þar verður dagurinn frjáls og við ökum síðan heim á hótel með viðkomu í bænum Kranjska Gora  í Slóveníu. Áætluð heimkoma kl. 18:00

Föstudagur 27. maí
Brottför: 8:30
Dagurinn er frjáls fyrir þá sem ekki eru þingfulltrúar.
Gunnsteinn mætir á KIEF fund á Holiday Inn kl. 9:00. Þá hefjast Ýmsar vinnustofur sem okkur er frjálst að mæta í ef einhver mál eru okkur hjartfólgin. Kl. 14:00 er mikilvægur fundur sem við biðjum ykkur að mæta á sem heitir Meet the candidates á Holday Inn. Þar kynnir Óskar Guðjónsson sjálfan sig sem frambjóðanda til Evrópuforseta.
Kl. 16:30 - 18:30 Setningarathöfn þingsins í Congress Center Ráðstefnuhöllinni við hliðina á Holiday Inn. Þangað förum við öll prúðbúin.
Strax á eftir setningarathöfninni eru Sérstakir atburðir á torginu fyrir framan Ráðstefnuhöllina.
Kl. 20:00 - 24: 00 Er svo Vináttukvöldverður í Bambergsaal Parkhotel Villach. Þangað hljóta að vera rútur, því þó þetta sé sennilega í löngu göngufæri þá er þetta of stuttur tími fyrir svona stóran hóp.


Laugardagur 28. maí
Áætlaðir staðir: Makaferð
Ferðatími: 4. Klst.
Brottför kl. 8:45
Þeir sem eru þingfulltrúar sinna skildum sínum og sitja þingið. Óskar okkar Guðjónsson verður þar í kjöri til Evrópuforseta. Það er því mikilvægt að öll okkar atkvæði nýtist og við náum kjöri.
Kl. 9:00 - 13:00 Young Professional Program á Holiday Inn
Kl. 14:00 - 18:00 Þingfundur
Kl. 18:00 - 19:00 Fundir sem Umdæmisstjóri þarf hugsanlega að vera á.
Kl. 20:00 - 24:00 Lokahóf. Gala kvöldverður á Holiday Inn hótelinu.


Makaferðir:
Þingið býður upp á óverju mikla afþreyingu fyrir maka.
Fimmtudagur. Kl. 18:00 - 19:00 Gönguferð um borgina
Föstudagur.     Kl. 6:00 - 22:00 Ferð til Feneyja á eigin vegum.
            3. Landa ferð Austurríki, Slóvenia, Ítalía. Kl. 9:00 - 18:00
            Þá eru einnig hugmyndir um ýmsa staði sem vert er að skoða. Laugardagur.   Aftur boðið upp á 3. Landa ferðina kl. 8:00 - 18:00
Kl. 8:30 - 13:00 og 13:30 - 18:00 Verslunarferð. Rútuferð til hins fræga markaðar Tarvisio á Ítalíu.


Mökum okkar er boðið til maka ferðar sem verður á léttari nótunum. Við skulum reikna með tímanum frá 11 til 16.

Brottför kl. 11:00
Makaferð okkar að þessu sinni verður að vatninu Wörthersee. Við leggjum af stað klukkan 11:00 frá hótelinu. Fyrst heimsækjum við kirkju Maríu Wörth sem er mjög sérstakur staður fremst á klettanefi, allt að því eyju, út í vatninu. Þar næst heimsækjum við eftirtektarverðan turn skammt frá vatninu, Pyramidenkogle. Lyfta er upp svo allir geta komist upp til að njóta útsýnisins. Þarna er líka kastali sem býður upp á sýningu með tamda erni. Ekki er vitað hvort við höfum tíma eða áhuga.


Sunnudagur 29. maí
Áætlaðir staðir: Ekið til Graz
Brottför. 11:00.
Graz er 272.000 manna borg sem stendur í 353 m. hæð yfir sjó. Hún er önnur stærsta borg Austurríkis. Við bókum okkur inn á Hotel Weitzer 4. Stjörnu hótel sem stendur við bakka árinnar Mur ekki langt frá miðbænum. Þar tekur Freya Schmidt á móti okkur og fer með okkur í gönguferð um borgina. Um kvöldið förum við saman í kvöldmat. það eru ýmsar hugmyndir í gangi en ekki tímabært að gera það opinbert.


Mánudagur 30. maí
Áætlaðir staðir: Ekið til Vínarborgar
Brottför: 10:00
Ferðanefndin velti því mikið fyrir sér hvort nauðsynlegt væri að fara til Vínar. Niðurstaðan er skýr við förum til Vínarborgar. Við ökum eftir hraðbrautinni svo þetta á að ganga vel. Við stoppum einu sinni á leiðinni og réttum úr okkur. Hótelið okkar er Coutyard by Marriot 6 hæða bygging með 118 herbergjum. Kvöldið verður ykkar.
Vínarborg er höfuðborg Austurríkis og stærsta borg landsins. Þar búa rúmlega 1,7 milljónir manna en 2,4 milljónir búa á stórborgarsvæðinu. Borgin stendur á bökkum Dónár í 170 metra hæð yfir sjó. Með stuttri ferð með neðanjarðarlestinni getum við farið í miðborgina. Stutt frá hótelinu eru góð Austurrísk kaffi- og veitingahús.


Þriðjudagur 31. maí
Áætlaðir staðir: Skoðunarferð í Vínarborg
Lengd ferðar. Óvíst um notkun rútu.
Ferðatími: 8. Klst.
Brottför: 10:00
Við hittum gætinn okkar um kl. 10:00 á hótelinu. Gengið verður um borgina og skoðaðar merkar byggingar. Nauðsynlegt er að sjá Vínaróperuna þetta fræga hús. Fleiri merkar byggingar eru í Vín s.s. skakka húsið sem dregur að sér ferðamenn alla daga ársins.

 

Fimmtudagur 1. júní
Áætlaðir staðir: Abtenau í Salsburghéraði.
Ferðatími:  8 klst.
Brottför kl. 10:00
Í dag ökum við til bæjarins Abtenau í Salsburg landi og gistum í 3 nætur á Hótel der Abtenauer, 4 stjörnu hótel, 53 herbergja, staðsett í miðbænum. Á hótelinu er veitingastaður, spa og gestir geta fengið reiðhjól að láni. Á sumrin er heimabakað sætabrauð og ís borin fram á veröndinni.
Abtenau er 5800 manna borg sem stendur í 714 metra hæð yfir sjó. Hún er þekkt fyrir líflegan miðbæ með búðum, börum og kaffihúsum. Borgin er vel staðsett fyrir okkur og stutt í alla staði sem við ætlum að heimsækja. Við borgina eru 150 km af göngu- og hjólreiðastígum. Hvort sem þú ert ungur að gamall, stór eða lítill finnur þú allt sem þú þarft fyrir ógleymanlegt sumar eða vetrarfrí í Abtenau.  Íþróttir, tómstundir, menning og falleg náttúra, allt þetta og miklu meira er í boði í Salzburg landi.

Ef við höfum tíma komum við við í bænum Gmunden sem er 13.000 manna bær í 425 m. hæð yfir sjó.  Eftir það krækjum við framhjá Salsburg og ökum bestu leið á hótelið okkar í Abtenau.


Fimmtudagur 2. Júní
Áætlaðir staðir: Skoðunarferð til Hallsted
Brottför kl. 10:00
Við ökum til bæjarins Hallsted sem er einstakur fyrir það litla land sem hann stendur á. Hallsted stendur niður við vatnið í snarbröttum hlíðum fjallsins. Bærinn ber mörg merki þess hversu landlítill hann er. Ef veðrið verður gott stoppum við 3 tíma í bænum og skoðum það sem hann hefur að geyma. Staður  sem þið eigið ekki eftir að gleyma.
Um kvöldið þiggjum við boð Umdæmisstjóra. Eigum góða stund saman og njótum  léttra veitinga.


Föstudagur 3. júní
Áætlaðir staðir: Skoðunarferð að Wolfgangsee
Lengd ferðar. 130 km.
Ferðatími:  8 klst.
Brottför kl. 10:00
Vatnið Wolfgangsee verður næst á vegi okkar en Þar höfum við verið áður. Bærinn Strobl  þar sem við dvöldum í Kiwanisferð 2008 verður fyrsti viðkomustaður okkar. Við göngum niður að vatninu sem hefur tekið nokkrum breytingum frá því við vorum þarna síðast. Vatnsbakkinn hefur verið endurbyggður og er nú verið skrýddur fallegum blómum. Því næst förum til bæjarins St. Wolfgang þar sem við gerum stopp. Við göngum um borð í bát sem flytur okkur til bæjarins St. Wolfgang. Þaðan förum við með járnbrautalest upp fjallið Schafberg sem er 1352 m hátt. Þarna er frábært útsýni í góðu veðri. Við tökum svo togbrautina niður aftur þar sem rútan býður eftir okkur og keyrir okkur heim á hótel.


Laugardagur 4. júní
Áætlaðir staðir: Ekið til Reit im Winkl
Brottför kl. 10:00
Bærinn Reit im Winkl á landamærum Austurríkis og Þýskalands er náttstaður okkar næstu 2 nætur. Bærinn stendur  í 695 m. hæð yfir sjó. Lítill og skemmtilegur bær rétt innan við Þýsku landamærin. Við höfum valið Hótel Hambergergers Posthotle, 3 1/2 stjörnu Wellness hótel sem náttstað okkar. Bærinn er fullur af lífi og veitingarstaðirnir og hótelin standa í röðum.


Sunnudagur 5. júní
Áætlaðir staðir: Berchtesgarden
Ferðatími:  8 klst
Brottför kl. 10:00
Berchtesgarden er eitt af eftirlætis stöðum Bödda sem segir eitt af fallegustu svæðum Þýskalands sé vatnið Königssee. Langar ykkur að skoða Arnarhreiður Adolfs Hitlers. Það er örstutt frá hótelinu okkar. Við ökum að Königssee vatni og fáum okkur kaffi í bænum Königssee. Eftir það keyrum við hring og skoðum okkur um áður en við förum á hótekið.


Mánudagur 6. júní
Áætlaðir staðir: Ekið til Munchen, Flogið til Íslands
Lengd ferðar. 146 km.
Ferðatími:  Akstur 2 klst. Flug 4 klst.

Flugið okkar frá Munchen er FI-533 kl. 14:05. Mæting er kl. 11;00. Við þurfum væntanlega að leggja af stað kl. 8:00. Við verðum að fara eftir ráðleggingum bílstjórans.

Ýmsar upplýsingar.
Í boði eru 50 sæti
Verð ferðarinnar verður að vera bundið við Evru og er  1950 Evrur sem er á gengi Landsbankanns 25.10.2015 145,20  Kr. 283.120.-
Staðfestingargjald er kr. 60.000.-
Eindagi er 3. Desember 2015.
Lokagreiðsla er 8 vikum fyrir brottför. Fyrir 1. apríl
Hægt er að greiða eftirstöðvar með raðgreiðslum eða með 4 jöfnum greiðslum.


Það gleður okkur að við skulum aftur fá tækifæri til að ferðast með ykkur í Kiwanisferð. Við rifjum nú upp gamla takta og vonum að ykkur líki ferðin.

Góða ferð.

Diddi (Diðrik Haraldsson) Sími 775 2255  E-mail: diddiharalds@hotmail.com
Böddi (Björn Baldvinsson) Sími 694 7300  E-mail: boddi@centrum.is

 Prentvæn útgáfa Hér