Lokahóf 46. umdæmisþings

Lokahóf 46. umdæmisþings


46. umdæmisþingi Kiwanis lauk með glæsilegu hófi í sal FÍ á laugardagskvöldið. Þar sá veitingahúsið Laugarás um gómsætar veitingar sem gestirnir gerðu góð skil. Eftirréttur í hófinu var í boði Bása og Kötlu sem gáfu ljúffengar rjómatertur í tilefni af afmælisárum klúbbanna. 

 

Veislustjóri var Friðjón úr Kiwanisklúbbnum Jörfa. Hann hafði frá mörgu spaugilegu að segja og veltust veislugestir of um af hlátri. Bjarni Arason sá um skemmtiatriði og hljómsveitin Upplyfting sá um fjörið á ballinu. Einn Kiwanisfélaga Sigursteinn Hákonarson sem er betur

 þekktur sem Steini úr tríóinu Dúmbó og Steini sté á svið og söng nokkur lög með hljómsveitinni við mikla hrifningu viðstaddra. 

 

Á hófinu voru einnig afhentar nokkrar viðurkenningar. Kiwanisklúbburinn Katla hlaut viðurkenningu fyrir athyglisverðasta líknarverkefnið 2015-2016 en það er útgáfa á fimmtíu hljóðbókum til Hljóðbókasafns Íslands, fyrir blind og lesblind börn. Í byrjun hverrar bókar kemur fram að útgáfan sé styrkt af Kiwanisklúbbbnum Kötlu. 

Fjölmiðlabikarinn fékk Kiwanisklúbburinn Sólborg vegna kvennakvölds en kvöldið fékk víðtæka umfjöllun, m.a. í Séð og heyrt. Kiwanisklúbburinn Dyngja fékk fjölgunarbikarinn en sá klúbbur var með fjölgun uppá 18.2%. Það verður að teljast mikil hvatning fyrir ungan kvennaklúbb! 

Þá fengu erlendu gestirnir áritaðar gærur með nöfnum viðstaddra sem hægt er að hlýja sér við á kvöldum vetrarkvöldum. Gunnsteini umdæmisstjóra og Sigríði konu hans voru þökkuð störf í þágu Kiwanis. 

Fjörinu lauk svo um tvöleytið og fengu flestir far með rútu á Hótel Smára þar sem töluverður hluti þinggesta bjó. 

Takk fyrir gott þing.