Drangey styrkir !

Drangey styrkir !


Í síðustu viku tóku kirkjusóknir í Skagafirði formlega við nýjum líkbíl í þjónustu sína sem félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar höfðu safnað fyrir en hann tekur við af 40 ára gömlum Chevrolet sendibíl. Mikil ánægja er með bílinn sem búinn er öllum þeim búnaði sem til er ætlast af slíkum bíl.
Það var árið 1997, fyrir tilstilli sr. Gísla Gunnarssonar og Gests Þorsteinssonar, að Rauði krossinn gaf kirkjusóknunum í Skagafirði sjúkrabíl sem hætt var að nota. Sá bíll var
innréttaður upp á nýtt og tekinn í notkun ári síðar og verið

notaður til líkflutninga allt fram til þessa og staðið sig vel í þjónustu við íbúa Skagafjarðar. Í ávarpi Ingimars Jóhannssonar, formanns sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju, kom fram að nefndin hefði árið 2019 ákveðið að stefna að því að endurnýja líkbíllinn innan þriggja ára og fá hinar kirkjusóknirnar í Skagafirði til liðs við sig. Var Ingimari falið að boða til fundar með formönnum sóknarnefnda og sóknarprestum héraðsins. Í desember sama ár eru Ingimari og sr. Sigríði Gunnarsdóttur, sóknarpresti á Sauðárkróki, boðuð á fund hjá Kiwanisklúbbnum Drangey á Sauðárkróki þar sem þeim var afhent hálf milljón upp í kaup á nýjum bíl. Klúbburinn bauðst jafnframt til þess að fylgja málinu eftir til annarra félaga og klúbba á svæðinu, sem þau Sigríður og Ingimar þáðu með þökkum. Boltinn var farinn að rúlla!
Í febrúar árið eftir var svo boðað til fundar með bréfi til sóknarpresta og formanna sókna í Skagafirði þar sem málin voru rædd og í fundarlok var ákveðið að prestaköllin fjögur tilnefndu einn fulltrúa hvert í nefnd og einn kæmi úr hópi sóknarpresta. Þegar leið að vori voru öll prestaköll búin að tilnefna í nefndina sem var þá mönnuð Agnari Gunnarssyni fyrir Miklabæjar-og Mælifellssókn, Böðvar Finnbogasyni fyrir Glaumbæjarsókn, Ingimari Jóhannssyni fyrir Sauðárkrókssókn og Kristínu Bjarnadóttur fyrir Hofsós- og Hólasókn. Séra Gísli Gunnarsson var svo tilnefndur úr hópi sóknarpresta.
Ingimar sagði að lítið hafi gerst í kjölfarið nema að Covid hafi tekið við og engin fundarhöld fyrr en í lok ársins. Nokkrum dögum fyrir fund nefndarinnar var hann og Guðrún Sighvatsdóttir, frá Sauðárkrókssókn, ásamt formanni og gjaldkera Kiwanisklúbbsins boðið til fundar við eigendur Steypustöðvar Skagafarðar. Þar var þeim afhent ein milljón króna í bílakaupasjóðinn til minningar um Pálma Friðriksson fyrrum Kiwanismanns en þann dag hefði hann orðið 77 ára.
„Pálma þekktum við öll, hann var t.d. upphafsmaður af því að taka grafir með traktorsgröfu í Sauðárkrókskirkjugarði. Hann innleiddi vélvæðingu og leysti af hakann og skófluna,“ sagði Ingimar við athöfnina.
Svo vildi til að Feykir hafði sín áhrif á verkefnið en nefndin ákvað að setja frétt og mynd í blaðið um þessa rausnarlegu gjöf sem síðan birtist í blaðinu síðla janúar sl. „Þetta leiddi svo af sér að fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar hafði samband, eftir að hafa skoðað Feyki, og kom með frétt í sínum miðlum. Eftir þetta fór boltinn að rúlla hratt. Klúbbar, félög, fyrirtæki, og sóknirnar lögðu okkur lið. Fyrsta mars var svo bíllinn pantaður hjá Bílaumboðinu Öskju og Bílaskjól sá um innréttingar,“ sagði Ingimar sem í lokin vildi koma þökkum til allra sem lagt hafa hönd á plóg. Þar næst óskaði hann Jóni Herði Elíassyni alls hins besta en hann mun sjá um akstur og umhirðu bílsins á komandi tímum.

 

Glæsilegur líkbíll var afhentur kirkjusóknum í Skagafirði í síðustu viku. F.v. Ingólfur Guðmundsson, forseti Kiwanisklúbbsins Drangeyjar, sr. Gísli Gunnarsson, Kristín Bjarnadóttir, Böðvar Finnbogason, Ingimar Jóhannsson, Agnar Gunnarsson og Jón Hörður Elíasson. Myndir: PF

 

 

www.feykir.is   greindi frá