Fundur með JC félögum

Fundur með JC félögum


Í dag 29. apríl var haldinn fundur í húsnæði hreyfingarinnar að Bíldshöfða 12 með félögum úr JCI hreyfingunni.  Tilefnið var samstarfssamningur sem gerður var milli JCI og Kiwanis, en báðar hreyfingarnar eru alheimshreyfingar.  Ætlunin var að fá hugmyndir um það hvernig hreyfingarnar gætu stutt við bak hvor annarrar.  Konráð Konráðsson umdæmisstjóri Kiwanis opnaði fundinn.   Síðan kom Þorkell Pétursson landstjóri JCI í pontu og sagði frá starfi þeirra.  Í JCI hreyfingunni eru 70 manns í 4 félögum öll staðsett í Reykjavík.  Helstu verkefni þeirra er ræðumennska, fundarstjórn og fundarritun.  Félagið gaf út bók um fundarsköp á árum áður en draumurinn er að endurútgefa þá bók þar sem hún er nú uppseld.  Þá veitir JCI viðurkenningar til Framúrskarandi ungra íslendinga og eru viðurkenningarnar í 10 flokkum, sjá nánar á www.framurskarandi.is  Þá er hægt að senda tilnefningar í gegnum þá síðu en lokað er fyrir tilnefningarnar 1. maí n.k. svo það er ekki eftir neinu að bíða ef Kiwanis félagar hafa augastað á ungum íslendingi sem hefur skarað fram úr þá endilega senda tilnefningu.  Þá kemur JCI að Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með því að þjálfa nemendur í framsögu og kynningu svo eitthvað sé nefnt.
Þá kynntu fundarfélagar sig og

út frá því spannst hin skemmtilegasta kynning á báðum hreyfingum því fundarfélagar sögðu frá hvert þeirra hlutverk væri í sinni hreyfingu og varð úr hin fróðlegasta kynning á báða bóga.  Þá sögðu Kiwanisfélagar frá tengingu ef einhver var, við JCI.
Þá fengu félagar sér kaffi, og gómsætar kleinur og ástarpunga.  
Eftir kaffihlé var Óskar Guðjónsson kjör Evrópuforseti með kynningu á samningi sem gerður var á milli Kiwanis International og JC International.    Eftir kynninguna var skipt í tvo hópa sem báðir brutu heilann um það hvað hreyfingarnar gætu gert til að styrkja hvor aðra.  Má segja að hugmyndirnar hafi flætt fram og ýmislegt komst á blað sem verður unnið áfram með og kynnt.  Hugmyndir eins og að bjóða þeim félögum JCI sem eru "komnir á aldur" það er að segja orðnir eldri en 40 ára sem er hámarksaldur JCI, inn í Kiwanishreyfinguna og á móti breiði Kiwanis út boðskapinn varðandi það að JCI sé góður vettvangur fyrir 18 - 40 ára til að styrkjast og eflast.  Báðar hreyfingarnar eiga við sama vandamál að stríða sem er fækkun eða stöðnun félagafjölda.   Er þetta einungis hluti af því sem komst á blað í þessari hugmyndavinnu.
Óhætt er að segja að hér hafi farið fram góður og gagnlegur fundur sem verður spennandi að vinna áfram með.


Emelía Dóra Guðbjartsdóttir
Umdæmisritari